Í þessu rannsóknarverkefni er hugað sérstaklega að fagmennsku eða uppeldis- og menntunarsýn kennara og skólastjórnenda. Sú hugsun liggur að baki að kennarar og skólastjórnendur sem búa yfir víðri og djúpri uppeldis- menntunarsýn nái betri árangri í skólastarfi. Markmið verkefnisins er að öðlast dýpri skilning á hugmyndum þeirra um kennslu sem byggja megi á við að efla þá í starfi og stuðla að skólaþróun. Í þessu skyni er sett fram fræðilíkan um uppeldis- og menntunarsýn. Áhersla er lögð á að greina leiðarljós þeirra, gildi í starfi, markmið, leiðir að markmiðum og daglega starfshætti. Auk þess er kannað hvernig lífssaga þeirra tengist markmiðum þeirra og starfsháttum.
Fræðilíkanið veitir þá möguleika að greina annars vegar hvernig sýn og starfshættir einstakra kennara þróast og hins vegar að skoða mismunandi sýn þeirra og starfshætti. Fræðilíkanið er nýtt framlag til rannsókna á fagmennsku kennara og skólastjórnenda á alþjóðlegum vettvangi og hefur vísindalegt gildi sem slíkt. Í umræðu um og í rannsóknum á þróun skólastarfs eru vonir bundnar við að kennarar, skólastjórnendur, rannsakendur og þeir sem standa að kennaramenntun geti nýtt sér þetta líkan í því skyni að efla skólastarf. Áhersluþættir innan þessa rannsóknasviðs hafa m.a. verið að kanna:
- hvernig hugmyndir kennara um uppeldis- og menntunarsýn sína –markmið, gildi, kennsluaðferðir og kennslustíl — þróast
- lífssögur kennara og hvernig þær tengjast uppeldis- og menntunarsýn þeirra; markmiðum, gildum, áhuga á starfinu og kennsluaðferðum
- kennsluaðferðir kennara í bekkjarstarfi með áherslu á umræður og tengsl þeirra við markmið kennara og uppeldis- og menntunarsýn
Fræðilíkanið hefur í fyrsta lagi verið notað til að greina uppeldis- og menntunarsýn kennara í skólaþróunarverkefnum þegar þeir leitast við að efla félagsþroska nemenda og samskiptahæfni. Í öðru lagi hefur það verið notað til að skoða uppeldis- og menntunarsýn skólastjóra og kennara sem standa að fjölmenningarlegri kennslu. Í þriðja lagi hefur það verið notað til að greina uppeldis- og menntunarsýn kennara sem vinna að því að efla lýðræðislega borgaravitund nemenda.