Dr. Helen Haste, gestaprófessor við Harvard University hélt fyrirlestur þann 21. ágúst 2013 á vegum rannsóknarsetursins.
Haste leitaði svara við spurningunni: „Hvernig geta mismunandi menningarsamfélög hjálpað okkur við að skilja lykilhugmyndir um borgaravitund fólks og borgaramenntun”.
Haste kynnti niðurstöður rannsóknar á siðferðisskilningi og borgarvitund kínverskra ungmenna (samstarfsaðilar Xu Zhao og Robert L. Selman) en athyglisverður munur kom fram þegar niðurstöðurnar voru bornar saman við rannsóknir á Bretlandseyjum og í Bandaríkjunum. Þetta átti sérstaklega við þegar skoðað var hvaða merkingu ungmennin leggja í samfélagsleg gildi, ábyrgð sína og siðferðilegar skyldur sem borgarar og hvað þeim finnst þau geta gert og hvernig þau taka þátt í samfélaginu.
Áhugaverðar umræður sköpuðst um það hvernig niðurstöðurnar ríma við siðferðisskilning og borgaravitund íslenskra ungmenna.
Dr. Haste er breskur sálfræðingur og beinist rannsóknaráhugi hennar að siðferðilegum, félagslegum og pólitískum gildum og borgarvitund fólks. Einnig beinist áhugi hennar að tengslum vísinda og samfélags, einkum fjölmiðlunar og ímyndar vísinda. Kynjafræðilegt sjónarhorn er jafnframt þema í rannsóknum hennar. Dr. Haste er mikilsvirt fræðikona og hefur birt fjölda fræðigreina í virtum tímaritum. Starfsævi sinni hefur hún að mestu varið við University of Bath, Englandi og er nú emeritus prófessor í sálfræði við skólann. Auk þess að vera gestaprófessor við Harvard University í Bandaríkjunum er hún gestaprófessor við University of Exeter, Englandi. Árið 2005 hlaut hún viðurkenningu „International Society of Political Psychology“, svonefndan „Nevitt Sanford Award“, fyrir framlag sitt til stjórnmálalegrar sálfræði. Ári síðar var hún kosin „Fellow of the Academy for Social Sciences“ í Bretlandi (vefsíða dr. Hastes: http://www.gse.harvard.edu/directory/faculty/faculty-detail/?fc=182&flt=... )