Rannsóknin Borgaravitund ungs fólks í lýðræðisþjóðfélagi hófst formlega árið 2007. Markmiðið er að afla þekkingar og skilnings á borgaravitund ungmenna til sjávar og sveita. Meðal annars er leitað eftir gildismati þeirra, hugmyndum um lýðræði, mannréttindi og ábyrgð í samfélaginu. Einnig er leitað eftir þeim áhrif sem þau telja sig hafa í samfélagi sínu og hvaða áhrif þau vildu hafa. Þátttakendur eru 11, 14 og 18 ára, 1500 talsins, í þremur byggðakjörnum landsins. Gögnum er safnað bæði með viðtölum og spurningalistum. Niðurstöður rannsóknarinnar ættu að geta orðið mikilvægt framlag til rannsókna á borgaravitund barna og ungmenna bæði hér á landi og á alþjóðavettvangi og hafa fræðilegt gildi sem slíkar.
Þá eru vonir bundnar við að niðurstöðurnar geti lagt grunn að hagnýtum rannsóknum. Þar væri kannað hvernig efla megi borgaravitund ungmenna sem fá tækifæri til að vinna markvisst að ýmsum samfélags- og mannréttindamálum á lýðræðislegan máta.
Úrvinnsla gagna ofangreindar rannsóknar hófst árið 2010. Árið 2011 kom út bók í samvinnu við Félagsvísindastofnun og Menntavísindastofnun Háskóla Íslands þar sem greint er frá öllum helstu tölfræðiniðurstöðum. Bókin kallast sama nafni og rannsóknin: Borgaravitund ungs fólks í lýðræðisþjóðfélagi. Hana má nálgast bæði í Bóksölu stúdenta og í Bóksölu Menntavísindasviðs.